Enn gerir Karius skelfileg mistök

Loris Karius í leiknum í gærkvöldi.
Loris Karius í leiknum í gærkvöldi. AFP

Markmaðurinn Loris Karius hefur undanfarna mánuði verið þekktari fyrir að gera klaufaleg mistök sem kosta mörk, heldur en glæsilegar markvörslur. Þjóðverjinn bætti miður góðum tilþrifum í safnið í gærkvöldi er hann varði mark Besiktas gegn Arnóri Ingva Traustasyni og félögum í Malmö í Evrópudeildinni. 

Fyrra mark Malmö er skráð sem sjálfsmark á Caner Erkin, en vinstri bakvörðurinn er eflaust ekki sáttur við markmanninn sinn. Erkin fékk boltann í sig eftir fyrirgjöf frá hægri og þaðan sveif hann á ótrúlegan hátt fram hjá Karius sem hefði auðveldlega getað gripið boltann. Að lokum vann Malmö 2:0-sigur. 

„Þjóðverjinn er eflaust ekki búinn að gleyma mistökunum sínum í úrslitaleik Meistaradeildarinnar og mun ekki gera það sem eftir lifir ferilsins. Öll mistök sem hann gerir núna minna hann eflaust á það kvöld. Þetta var ekki fallegt," skrifaði enska blaðið Daily Mirror um mistökin. 

Þýska blaðið Bild þurfti aðeins tvö orð til að lýsa atvikinu: „Ekki aftur...“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert