Arnór hetjan er Lilleström hélt sér uppi

Arnór Smárason.
Arnór Smárason. Ljósmynd/Lilleström

Lokaumferðin í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu fór fram í dag en tvo Íslendingalið voru í hörðum fallslag fyrir leiki dagsins. Arnór Smárason og félagar í Lilleström héldu sér uppi þökk sé 2:0-sigri á Kristansund en Arnór skoraði fyrsta markið. Aron Sigurðarson og félagar í Start máttu hins vegar bíta í það súra epli að falla um deild eftir 3:1-tap gegn Haugesund.

Arnór kom Lilleström yfir strax á 15. mínútu áður en liðsfélagi hans, Thomas Lehne Olsen, tvöfaldaði forystuna og innsiglaði sigurinn á 85. mínútu eftir stoðsendingu Arnórs og endaði því Lilleström með 32 stig og í 12. sæti, þremur stigum frá falli.

Aron var aftur á móti ónotaður varamaður í liði Start sem þurfti sigur gegn Haugesund. Þetta byrjaði vel er Adeleke Akinyemi kom Start yfir snemma leiks en heimamenn svöruðu með þremur mörkum í síðari hálfleik og Start því fallið um deild. Þá var Guðmundur Andri Tryggvason ekki í leikmannahóp Start.

Matthías Vilhjálmsson var ónotaður varamaður hjá meisturum Rosenborg sem gerðu 1:1-jafntefli gegn Bodo/Glimt en liðið hafði tryggt sér norska meistaratitilinn fyrir umferðina. Þá spilaði Emil Pálsson fyrstu 70 mínúturnar í 3:1-tapi Sandefjord gegn Molde en Emil og félagar voru löngu fallnir úr deildinni og enda á botninum, 16. sæti.

Orri Sigurður Ómarsson spilaði síðustu 20 mínúturnar í 2:0-sigri Sarpsborg á Tromsö og enduðu Orri og félagar í 8. sæti. Að lokum enduðu Samúel Kári Friðjónsson og félagar í Vålerenga í 6. sæti eftir 2:1-sigur á Ranheim en Samúel var allan tímann á varamannbekknum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert