Vissi ekki hvort ég gæti staðið upp

Sara Björk Gunnarsdóttir er íþróttamaður ársins 2018.
Sara Björk Gunnarsdóttir er íþróttamaður ársins 2018. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Maður fær fiðring í magann og hugsar um árið,“ sagði knattspyrnukonan Sara Björk Gunnarsdóttir, í samtali við mbl.is, aðspurð hvernig henni hafi liðið rétt áður en hún var krýnd íþróttamaður ársins 2018 í Hörpu í kvöld. 

„Þetta var frábært ár með hæðum og lægðum. Það voru níu aðrir frábærir íþróttamenn á listanum sem hefðu alveg eins getað unnið þetta,“ bætti Sara við.

En hvernig var að heyra nafnið sitt? 

„Ég varð bara dofin og var ekki viss hvort ég gæti staðið upp,“ sagði hún og brosti við. „Ég átti bæði von á þessu og ekki. Maður undirbýr bæði að maður eigi möguleika, sem og að einhver annar vinni.“

Sara átti afar gott ár; vann tvöfalt í Þýskalandi með Wolfsburg og komst alla leið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Hún viðurkennir að ákveðnir tímapunktar á árinu hafi verið býsna erfiðir engu að síður. 

Leið ekki vel og átti erfitt

„Árið sjálft hefur verið upp og niður. Ég er búin að ganga í gegnum mikið mótlæti en það er ekki leiðinlegt að enda árið svona. Eftir síðasta tímabil með Wolfsburg þegar ég meiddist var ég algjörlega sprungin vegna álags. Á þeim tímapunkti leið mér ekki vel og átti erfitt. Svo fékk ég drifið aftur og vildi komast aftur í gang.

Ég fékk eldmóðinn til að ná mér aftur á strik og allt í einu var ég farin að hugsa um næsta mót og næsta leik aftur. Augnablikið þegar ég klikkaði á vítinu til að komast í umspil á HM og draumur allra í landsliðinu glataðist var líka mjög lágur punktur. Svona er fótboltinn í hnotskurn,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir, íþróttamaður ársins 2018. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert