Bikarævintýri Aalesund hélt áfram gegn Rosenborg

Hólmbert Aron Friðjónsson skaut Aalesund áfram í átta liða úrslit …
Hólmbert Aron Friðjónsson skaut Aalesund áfram í átta liða úrslit í vítakeppni. Ljósmynd/Aalesund

Bikarævintýri norska B-deildarliðsins Aalesund hélt áfram þegar liðið sótti Rosenborg heim í sextán liða úrslitum í norsku bikarkeppninni í knattspyrnu í dag. Leiknum lauk með 1:1-jafntefli en þeir Aron Elís Þrándarson, Davíð Kristján Ólafsson og Hólmbert Aron Friðjónsson voru allir í byrjunarliði Aalesund í leiknum.

Niklas Castro kom Aalesund yfir á 35. mínútu en undir lok fyrri hálfleiks fékk Davíð Kristján að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt, leikmenn Aalesund því einum manni færri það sem eftir lifði leiks. Tore Reginiussen jafnaði metin fyrir Rosenborg á 82. mínútu og staðan eftir venjulegan leiktíma 1:1.

Því var gripið til framlengingar þar sem hvorugu liðinu tókst að skora og því þurfti vítakeppni til þess að skera úr um úrslit leiksins. Þar hafði Aalesund betur þar sem Hólmbert Aron Friðjónsson skoraði af öryggi úr fimmtu spyrnu Aalesund og tryggði þeim 5:4-sigur í vítakeppninni.

Þá kom Dagur Dan Þórhallsson inn á sem varamaður á 66. mínútu hjá Mjøndalen þegar liðið vann öruggan 3:0-útisigur gegn Konsvinger og Samúel Kári Friðjónsson sat allan tímann á varamannabekk Viking sem vann 5:2-heimsigur gegn Stabæk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert