Frank de Boer, fyrrverandi fyrirliði hollenska landsliðsins í knattspyrnu, segir það fáránlega hugmynd að kvennalandslið Hollands muni fá jafn háar bónusgreiðslur og karlalandslið Hollands árið 2023. Hollenska knattspyrnusambandið greindi frá þessum áætlunum sínum á dögunum eftir að hollenska kvennalandsliðið hafnaði í öðru sæti á HM í Frakklandi sem fram fór í sumar.
De Boer er goðsögn í hollenskum fótbolta en hann spilaði 112 landsleiki fyrir hollenska landsliðið á árunum 1990 til ársins 2004. Hann þjálfar lið Atlanta United í bandarísku MLS-deildinni í dag en hann hefur meðal annars stýrt Ajax, Inter Mílanó og Crystal Palace á ferli sínum. „Þetta er fáránleg hugmynd,“ sagði De Boer í samtali við Guardian.
„Ef þú horfir á úrslitaleik HM sem dæmi þá eru 500 milljónir sem horfa á karlaleikinn en 100 milljónir sem horfa á kvennaleikinn. Þetta er stór munur. Auðvitað á að borga þeim það sem þær eiga skilið, ekki misskilja mig, en á meðan kvennafótboltinn er ekki nærri því jafn vinsæll og karlafótboltinn á ekki að borga konunum það sama og karlarnir fá.“
„Konurnar afla ekki jafn mikilla tekna og karlarnir og þannig hefur það verið lengi. Á meðan það er þannig sé ég ekki af hverju þær eiga að fá jafn mikið greitt og kallarnir. Þetta reikningsdæmi snýst einfaldlega um framboð og eftirspurn og þessi hugmynd er algjörlega fráleit,“ sagði De Boer.