Svíinn Zlatan Ibrahimovic kann að hafa spilað sinn síðasta leik með LA Galaxy í nótt þegar liðið féll úr leik í úrslitakeppni bandarísku MLS-deildarinnar í fótbolta.
Í miklum markaleik hafði Los Angeles betur í grannaslagnum gegn LA Galaxy 5:3 þar sem Zlatan skoraði eitt af mörkum sinna manna.
Zlatan, sem er 38 ára gamall, er samningsbundinn LA Galaxy til áramóta en félög í Evrópu hafa borið víurnar í Svíann magnaða og síðustu fréttir herma að ítalska liðið Napoli vilji fá hann í sínar raðir.
„Ég hef tvo mánuði til að ákveða um framtíð mína. Þetta snýst ekki um peninga frá Galaxy eða MLS. Ég veit ekki hvað tekur við hjá mér á næsta ári. Mig langar að fara til liðs sem er í meistarabaráttu því ég get skipt sköpum. Ég er ekki bara dýr í dýragarði sem fólk kemur til að sjá. Ég get skorað 20 mörk á tímabili,“ segir Zlatan.
Zlatan skoraði 31 mark í 31 leik með LA Galaxy á tímabilinu og samtals hefur hann skorað 53 mörk í 58 leikjum með liðinu og gefið 15 stoðsendingar.