Aron Elís Þrándarson lék mjög vel og skoraði fyrra mark OB þegar liðið vann góðan 2:0-sigur gegn AaB í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær. Er hann því í liði 22. umferðar hjá danska knattspyrnutímaritinu Tipsbladet.
Aron Elís lék á miðri miðjunni í leiknum, aftar en hann hefur verið þekktur fyrir, en hann hefur iðulega spilað sem sóknarmaður, vængmaður eða sóknartengiliður.
Á tímabilinu til þessa hefur hann mestmegnis verið að koma inn á sem varamaður en fékk þó traustið hjá nýjum þjálfara um helgina, eftir að Jakob Michelsen var látinn taka pokann sinn. Í skrifum Tipsbladet um ástæðuna fyrir valinu á Aroni Elís í lið umferðarinnar segir:
„Jakob Michelsen hafði ekki mikla trú á Íslendingnum, en Þrándarson var í byrjunarliðinu í fyrsta leiknum undir stjórn Michaels Hemmingsen, og þeirri ákvörðun sér hann ekki eftir. Aron Elís Þrándarson átti stórleik gegn AaB, þar sem hann kom OB í 1:0. Íslendingurinn vann næstflest návígi í 22. umferð.“
Um var að ræða fyrsta skiptið á tímabilinu sem Aron Elís er valinn í lið umferðarinnar hjá Tipsbladet.