Enska knattspyrnufélagið Manchester United hefur dregið sig út úr samtökum evrópskra knattspyrnufélaga, ECA, í kjölfar frétta af stofnun hinnar nýju ofurdeildar í fótboltanum.
Þá hefur Ed Woodward, framkvæmdastjóri og varastjórnarformaður United, dregið sig út úr þeim hlutverkum sem hann hefur gegnt innan UEFA, Knattspyrnusambands Evrópu.
Sky Sports greinir frá þessu og þá hefur Sky Italia enn fremur staðfest að ítölsku félögin Juventus, AC Milan og Inter Mílanó hafi öll dregið sig út úr ECA. Andrea Agnelli, stjórnarformaður Juventus, sem hefur verið stjórnarformaður ECA frá 2012, hefur sagt sig frá því hlutverki, sem og stjórnarstörfum í framkvæmdastjórn UEFA. Hann á að vera varaforseti nýju ofurdeildarinnar.