Fjöldi Íslendinga var í eldlínunni í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í dag. Þar á meðal voru þeir Viðar Ari Jónsson, sem skoraði fyrir Sandefjord í sigri, og Samúel Kári Friðjónsson, sem lagði upp mark í sigri Viking.
Viðar Ari lék allan leikinn á hægri kantinum og skoraði annað mark Sandefjord í sterkum 3:1 útisigri gegn Tromsø í dag. Adam Örn Arnarson var allan tímann á varamannabekk Tromsø.
Samúel Kári lagði svo upp fyrsta mark Viking í 3:1 útisigri liðsins gegn Lillestrøm. Lék hann fyrstu 85 mínútur leiksins.
Kristiansund og Strømsgodset mættust svo í Íslendingaslag, þar sem Brynjólfur Andersen Willumsson lék fyrstu 74 mínúturnar í liði Kristiansund og Valdimar Þór Ingimundarson fyrstu 63 mínúturnar í liði Strømsgodset. Ari Leifsson sat allan tímann á varamannabekk Strømsgodset.
Þá lék Alfons Sampsted síðari hálfleikinn fyrir Bodø/Glimt í 2:1 útisigri gegn Brann.
Viðar Örn Kjartansson lék svo fyrstu 84 mínúturnar í liði Vålerenga þegar liðið gerði 1:1 jafntefli við Mjøndalen á útivelli.