Ítalía Evrópumeistari í annað sinn

Ítalir fagna Evrópumeistaratitlinum.
Ítalir fagna Evrópumeistaratitlinum. AFP

Ítalía vann sinn annan Evrópumeistaratitil karla í fótbolta með sigri á Englandi í vítakeppni í úrslitaleik á Wembley í kvöld. Sigurinn er sá fyrsti hjá Ítalíu á EM frá árinu 1968. Englendingar þurfa hinsvegar að bíða lengur eftir sínum öðrum sigri á stórmóti. 

Leikurinn byrjaði með ótrúlegum látum því strax á 2. mínútu skoraði Luke Shaw huggulegt mark. Bakvörðurinn kláraði þá með skoti í stöng og inn á fjærstönginni eftir sendingu frá Kieran Trippier.

Gianluigi Donnarumma ver frá Bukayo Saka og tryggir Ítalíu Evrópumeistaratitilinn.
Gianluigi Donnarumma ver frá Bukayo Saka og tryggir Ítalíu Evrópumeistaratitilinn. AFP

Eftir markið var leikurinn jafn og liðin skiptust á að vera með boltann að leita leiða framhjá vörn andstæðinganna. Federico Chiesa komst næst því að jafna fyrir Ítalíu í fyrri hálfleik er hann komst framhjá Declan Rice á miðjunni og lét vaða rétt utan teigs en boltinn rétt framhjá.

England skapaði sér ekki góð færi seinni hluta fyrri hálfleiks og var staðan í leikhléi því 1:0, Englandi í vil.

Seinni hálfleikurinn þróaðist svipað og síðustu 25 mínúturnar í fyrri hálfleik. Boltinn var mikið á vallarhelmingi Englands og Ítalir að leita að glufum á ensku vörninni. Chiesa fékk sitt annað fína færi eftir um klukkutíma leik en þá varði Jordan Pickford í marki Englands mjög vel frá honum.

Leonardo Bonucci fagnar jöfnunarmarki sínu.
Leonardo Bonucci fagnar jöfnunarmarki sínu. AFP

Pickford gat hinsvegar lítið gert á 67. mínútu þegar Leonardo Bonucci skoraði af stuttu færi eftir að Englendingum gekk illa að koma boltanum úr eigin vítateig eftir hornspyrnu. Pickford varði að vísu glæsilega frá Marco Veratti rétt á undan en Bonucci var fljótur að átta sig í teignum og skoraði af öryggi.

Ítalirnir settu áfram mikla pressu á vörn Englendinga eftir markið og voru töluvert nær því að skora en þeir ensku. Eftir því sem leið á hálfleikinn minnkaði hinsvegar pressan og var mikið jafnræði með liðunum síðustu tíu mínútur seinni hálfleiks. Ekki var meira skorað í venjulegum leiktíma og því var framlengt.

Fátt markvert gerðist í framlengingunni þar sem bæði lið voru varkár og tóku fáa sem enga sénsa. Úrslitin réðust því í vítaspyrnukeppni.

Þar voru Ítalir sterkari því Gianluigi Donnarumma, markvörður Ítala, varði frá Jadon Sancho og Bukayo Saka á meðan Marcus Rashford skaut í stöng. Mörk frá Harry Kane og Harry Maguire dugðu ekki til. 

Dominico Berardi, Leonardo Bonucci og Federico Bernandeschi skoruðu mörk Ítala í vítakeppninni á Jordan Pickford varði frá Jorginho og Andrea Belotti. 

Luke Shaw skorar fyrsta mark leiksins.
Luke Shaw skorar fyrsta mark leiksins. AFP
Ítalía 4:3 England opna loka
120. mín. Jordan Henderson (England) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert