Argentína vann í nótt góðan 1:0-sigur gegn erkifjendum sínum í Brasilíu í úrslitaleik Ameríkubikarsins í knattspyrnu karla, Copa America. Sigurmarkið gerði Ángel Di María.
Sigurmark Di María kom um miðjan fyrri hálfleik, á 22. mínútu. Rodrigo De Paul gaf þá stórkostlega sendingu inn fyrir á vængmanninn knáa, Renan Lodi í vörn Brasilíu náði ekki almennilega til boltans og Di María tók glæsilega á móti boltanum og lyfti honum svo snyrtilega yfir Ederson í marki Brasilíu.
Gífurlega hart var barist og fór urmull gulra spjalda á loft, enda brotin fjölmörg og sum hver ljót, þótt engin hafi rauðu spjöldin verið.
Bæði lið fengu góð tækifæri til þess að bæta við mörkum í leikinn, sem fór fram á Maracana-vellinum í Brasilíu, en allt kom fyrir ekki.
Sigur Argentínu því staðreynd og Lionel Messi, fyrirliði Argentínu, er þar með loksins búinn að vinna sinn fyrsta titil með landsliðinu eftir að hafa unnið til silfurverðlauna fjórum sinnum; þrisvar hafði hann lent í öðru sæti á Copa America og einnig tapaði Argentína úrslitaleik HM 2014.
Þetta er fyrsti titill Argentínu í 28 ár, eða síðan liðið vann síðast Copa America.