„Leikur sem við áttum aldrei að tapa“

Arnar Þór Viðarsson á blaðamannafundi í gær.
Arnar Þór Viðarsson á blaðamannafundi í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, var ánægður með frammistöðu liðsins þrátt fyrir 0:2 tap gegn Rúmeníu í undankeppni HM 2022 á Laugardalsvelli í kvöld.

„Þetta er súrt vegna þess að frammistaðan var bara mjög góð. Við vorum kannski sjálfir okkur verstir vegna þess að við gleymum okkur tvisvar, sérstaklega í fyrra markinu strax eftir hálfleik. Þegar þú færð mark á þig svona snemma er náttúrlega erfitt að koma til baka. Þeir byrja að tefja og vita alveg hvernig þeir eiga að spila á klukkuna,“ sagði Arnar Þór í samtali við RÚV að leik loknum.

Hann sýtti það að nokkur mjög góð færi hafi farið forgörðum. „Ég er bara mjög stoltur af strákunum þannig lagað. Frammistaðan var góð, það var góð orka í liðinu.  Menn voru virkilega að reyna að standa saman í þessu. Við fengum allavega þrjú mjög góð færi og fáum 5-6 möguleika. Ég held að heilt yfir hafi þetta verið leikur sem við áttum aldrei að tapa,“ bætti Arnar Þór við.

Aðspurður sagðist hann ekki feginn því að leikur kvöldsins væri frá með allt það sem hefur gengið á í kringum KSÍ undanfarna viku í huga. „Ég er bara hundfúll að hafa tapað fótboltaleik, það eru einu tilfinningarnar sem eru núna. Ef að fólk myndi kíkja inn í klefa núna þá er það bara sama tilfinning hjá strákunum.

Við þurfum að greina þennan leik núna og laga það sem betur mátti fara og bæta það sem var gott. Svo mætum við aftur á sunnudaginn en við ætlum bara að vera hundfúlir í kvöld,“ sagði hann að lokum við RÚV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert