Liverpool marði sigur í spennutrylli í Madríd

Mohamed Salah kemur Liverpool yfir að nýju með marki úr …
Mohamed Salah kemur Liverpool yfir að nýju með marki úr vítaspyrnu. AFP

Liverpool vann frábæran 3:2 útisigur gegn Spánarmeisturum Atlético Madríd á Wanda Metropolitano-vellinum í Madríd í 3. umferð B-riðils Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla í kvöld.

Liverpool tók forystuna snemma leiks. Andy Robertson gaf þá yfur á fjærstöngina þar sem Mohamed Salah elti boltann. Hann náði að komast framhjá nokkrum varnarmönnum Atlético og í grennd við D-bogann lét hann vaða á markið, skotið fór af James Milner og þaðan í bláhornið fjær, 1:0

Aðeins fimm mínútum síðar tvöfaldaði Liverpool forystuna. Felipe skallaði þá fyrirgjöf Trent Alexander-Arnold út þar sem Naby Keita tók boltann einfaldlega á lofti við vítateigslínuna og steinlá hann í nærhorninu, 2:0

Sjö mínútum síðar, á 20. mínútu, minnkaði Atlético muninn. Liðið tók þá stutta hornspyrnu, Thomas Lemar tók Keita auðveldlega á og lagði boltann út á Koke sem átti skot eða sendingu sem Griezmann stýrði í netið af stuttu færi, 2:1.

Á 34. mínútu jöfnuðu heimamenn í Atlético svo metin. Joao Félix fór þá laglega framhjá Keita, lagði boltann á Griezmann sem var mættur í frábært hlaup, tók góða snertingu og kom boltanum framhjá Alisson í marki Liverpool, 2:2.

Þannig stóðu leikar í hálfleik.

Snemma í síðari hálfleik dró til tíðinda. Þá sparkaði títtnefndur Griezmann í andlitið á Roberto Firmino þegar hann var að reyna að teygja sig í boltann og uppskar beint rautt spjald fyrir vikið á 52. mínútu.

Erfiðlega gekk hjá Liverpool að brjóta þéttan varnarmúr Atlético á bak aftur en á 76. mínútu fékk liðið vítaspyrnu eftir að Mário Hermoso braut fáránlega á Diogo Jota innan vítateigs.

Salah steig á vítapunktinn og skoraði af öryggi, 3:2.

Skömmu síðar fékk Atlético dæmda vítaspyrnu eftir að José Giménez féll í vítateignum eftir viðskipti við Jota. Daniel Siebert dómari skoðaði atvikið nánar í VAR-skjánum og ákvað eftir það að draga dóm sinn til baka. Það virtist vera snerting en Siebert hefur ekki þótt hún nægilega mikil.

Mörkin urðu ekki fleiri og gífurlega sterkur sigur Liverpool staðreynd.

Liverpool er eftir sigurinn með fullt hús stiga í B-riðlinum, 9 stig eftir þrjá leiki, fimm stigum á undan Atlético og Porto, sem eru bæði með 4 stig.

Antoine Griezmann er búinn að skora bæði mörk Atlético Madríd.
Antoine Griezmann er búinn að skora bæði mörk Atlético Madríd. AFP
Trent Alexander-Arnold og Naby Keita fagnar marki þess síðarnefnda.
Trent Alexander-Arnold og Naby Keita fagnar marki þess síðarnefnda. AFP
Atlético Madrid 2:3 Liverpool opna loka
90. mín. Að minnsta kosti sex mínútum verður bætt við venjulegan leiktíma.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert