Sakar Maradona um nauðgun

Mavys Álvarez. Hún heldur á mynd af sér, Castro og …
Mavys Álvarez. Hún heldur á mynd af sér, Castro og Maradona. AFP

37 ára gömul kona frá Kúbu segir argentínska knattspyrnusnillinginn Diego Armando Maradona hafa nauðgað sér þegar hún var 16 ára gömul.

Mavys Álvarez heitir konan og hún hefur gefið skýrslu hjá dómsmálaráðuneytinu í Argentínu samkvæmt frásögn Guardian. Yfirvöld í Argentínu eru með málið til rannsóknar en Maradona lést fyrir ári eins og mörgum lesendum er eflaust kunnugt um.

Álvarez og Maradona kynntust á Kúbu árið 2001 þegar Maradona sótti sér þar hjálpar vegna fíkniefnaneyslu. Þau munu hafa ferðast saman til Argentínu í framhaldinu.

Maradona og Fidel Castro árið 2013.
Maradona og Fidel Castro árið 2013. AFP

 Á fundi með fjölmiðlafólki í Argentínu lýsti Álvarez því yfir að Maradona hafi nauðgað henni þegar þau voru stödd í meðferðastofnuninni í Havana. Þar hefði móðir Álvarez einnig verið í meðferð.

„Ég var ekki lengur stúlka því ég hafði verið rænd sakleysinu. Það er erfitt,“ sagði Álvarez meðal annars en Maradona var fertugur þegar hún var 16 ára. 

Eftir þetta áttu Álvarez og Maradona í sambandi í einhvern tíma. Hún hefur áður sagt að fjölskylda hennar hafi ekki fett fingur út í það, þrátt fyrir aldursmuninn, vegna vinskapar Maradona og Fidels Castro, þáverandi einræðisherra á Kúbu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert