Argentínski sóknarmaðurinn Sergio Agüero hefur neyðst til að leggja knattspyrnuskóna á hilluna, 33 ára að aldri, vegna hjartavandamála.
Þetta tilkynnti hann á blaðamannafundi á Camp Nou, heimavelli Barcelona, félagsins sem hann lék með sína síðustu leiki á ferlinum, rétt í þessu.
Agüero kvartaði undan eymslum í brjósti í leik gegn Alavés í lok október síðastliðnum og var hraðað á spítala þar sem hann gekkst undir ýmsar hjartarannsóknir.
Í dag staðfesti hann það svo endanlega á blaðamannafundinum að vegna hjartavandamála gæti hann ekki haldið knattspyrnuferli sínum áfram.
„Þessi blaðamannafundur er haldinn í því skyni að tilkynna að ég hef ákveðið að hætta að leika knattspyrnu sem atvinnumaður. Þetta er mjög erfitt augnablik. Ég hef tekið þessa ákvörðun með heilsu mina í huga; vegna vandamálsins sem kom upp fyrir einum og hálfum mánuði,“ sagði Agüero og átti erfitt með að halda aftur af tárunum.
„Ég hef verið í góðum höndum hjá læknateymi félagsins. Ég tók þessa ákvörðun fyrir tíu dögum eftir að hafa gert allt sem í mínu valdi stóð til þess að eiga einhverja von um að halda áfram að spila. Ég er mjög stoltur af ferli mínum. Mig dreymdi um að eiga atvinnumannsferil allt frá því að ég snerti bolta fyrst fimm ára gamall.
Ég vil þakka Atlético Madríd fyrir að gefa mér tækifæri þegar ég var 18 ára gamall og Manchester City, allir vita hvað mér þykir vænt um City og hve vel var hugsað um mig þar.
Ég yfirgef sviðið með höfuðið hátt. Ég veit ekki hvað tekur við í þessum næsta kafla lífs míns en ég veit að ég er umkringdur fólki sem elksar mig. Ég mun aldrei gleyma öllum ótrúlegu hlutunum,“ sagði hann einnig.
Agüero skoraði yfir 400 mörk með félagsliðum sínum og argentínska landsliðinu í öllum keppnum á mögnuðum ferli og vann ensku úrvalsdeildina fimm sinnum með Manchester City, þar sem hann lék stærstan hluta ferilsins.