Svipta fyrrverandi landsliðsfyrirliða Úkraínu öllum titlum

Anotoliy Tymoschuk, til hægri, í landsleik með Úkraínu gegn Frakklandi.
Anotoliy Tymoschuk, til hægri, í landsleik með Úkraínu gegn Frakklandi. Reuters

Úkraínska knattspyrnusambandið hefur svipt einhvern þekktasta knattspyrnumann þjóðarinnar, Anatoliy Tymoshchuk, öllum þjálfararéttindum og titlum innan hreyfingarinnar fyrir afstöðuleysi gagnvart innrás Rússlands í Úkraínu.

Tymoshchuk, sem er 42 ára gamall, er langleikjahæsti landsliðsmaðurinn í sögu Úkraínu en hann lék 144 landsleiki á árunum 2000 til 2016 og var landsliðsfyrirliði um langt árabil. Hann lék lengi með Shakhtar Donetsk í Úkraínu en síðan með Zenit Pétursborg í Rússlandi og þýska stórveldinu Bayern München. 

Hann varð þrisvar úkraínskur meistari með Shakhtar, tvisvar rússneskur meistari með Zenit og tvisvar þýskur meistari með Bayern.

Eftir að hann lagði skóna á hilluna í árslok 2016, þar sem hann lék síðasta tímabil sitt á ferlinum með Kairat Almaty í Kasakstan, hefur Tymoshchuk verið aðstoðarþjálfari Zenit í Rússlandi og hefur haldið starfi sínu áfram þar þrátt fyrir innrásina.

Knattspyrnusambandið í Úkraínu ákvað af þeim sökum, og vegna þess að Tymoshchuk hefur ekkert tjáð sig um innrásina, að svipta hann öllum titlum. Sagt er í yfirlýsingu að þessi meðvitaða ákvörðun hans um að starfa áfram fyrir Zenit sé skaðleg fyrir ímynd úkraínskrar knattspyrnu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert