Tillaga Chelsea stórfurðuleg

Middlesbrough sló út úrvalsdeildarlið Tottenham Hotspur í 16-liða úrslitum ensku …
Middlesbrough sló út úrvalsdeildarlið Tottenham Hotspur í 16-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar og mætir næst Chelsea. AFP

Enska B-deildarliðið Middlesbrough hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem tillaga Chelsea um að leikur liðanna í fjórðungsúrslitum ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu karla um næstu helgi verði spilaður fyrir luktum dyrum, vegna þess að Chelsea getur ekki selt stuðningsmönnum sínum miða á leikinn, er sögð stórfurðuleg.

Eftir að eigur rússneska auðjöfursins Romans Abramovich voru frystar, þar á meðal Chelsea, varð það ljóst að félagið mætti einungis hleypa ársmiðahöfum á leiki liðsins. Því reyndist Chelsea ómögulegt að selja miða á leik Middlesbrough og Chelsea.

Af þeim ástæðum gaf Chelsea út yfirlýsingu í morgun þar sem kom fram að félaginu þætti það sanngjarnast að stuðningsmenn Middlesbrough mættu ekki heldur mæta á leikinn.

„Okkur er kunnugt um beiðni Chelsea um að leikur okkar í sjöttu umferð ensku bikarkeppninnar á laugardag verði spilaður fyrir luktum dyrum og þykir okkur tillaga félagsins bæði stórfurðuleg og án nokkurs gildis.

Öllum sem eiga hlut að máli er vel kunnugt um ástæðurnar fyrir því að Chelsea hefur sætt refsiaðgerðum og að þær hafi ekki nokkurn skapaðan hlut með Middlesbrough að gera.

Að leggja það til að Middlesbrough og stuðningsmönnum okkar verði refsað er ekki einungis fyllilega ósanngjarnt heldur einnig án nokkurs grunns.

Með ástæðurnar fyrir refsiaðgerðunum í garð Chelsea í huga er það stórkostlega kaldhæðnislegt að félagið nefni „heiðarleika“ íþrótta sem ástæðu fyrir því að spila ætti leikinn fyrir luktum dyrum.

Við bíðum nú tilmæla frá enska knattspyrnusambandinu varðandi næstu skref en Middlesbrough fullvissar alla um að félagið muni veita fyllsta viðnám við aðgerðum Chelsea,“ sagði í yfirlýsingu Middlesbrough.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert