Wales tryggði sér í kvöld sæti á lokamóti heimsmeistaramóts karla í fótbolta í Katar með 1:0-heimsigri á Úkraínu í úrslitaleik umspilsins. Mótið verður það fyrsta sem Wales spilar á í 64 ár eða frá árinu 1958.
Sigurmarkið skráist sem sjálfsmark á Andriy Yarmolenko en hann skallaði boltann í eigið net eftir hættulega aukaspyrnu frá Gareth Bale.
Úkraína var sterkara liðið í seinni hálfleik og skapaði sér nokkuð af færum en Wayne Hennessey í marki Wales átti afar góðan leik og tryggði þjóð sinni sæti á heimsmeistaramótinu á meðan Úkraína situr eftir með sárt ennið.