Rapinoe: Líkamsárás hjá forsetanum

Luis Rubiales fagnar með því að bera Atheneu del Castillo …
Luis Rubiales fagnar með því að bera Atheneu del Castillo á sunnudag. AFP/David Gray

Bandaríska knattspyrnukonan Megan Rapinoe hefur tjáð sig um þegar Luis Rubiales, forseti spænska knattspyrnusambandsins, kyssti Jennifer Hermoso, leikmann kvennalandsliðsins, á munninn í óþökk hennar eftir að Spánn tryggði sér heimsmeistaratitilinn á sunnudag.

Í samtali við bandaríska tímaritið The Atlantic sagði Rapinoe að gjörðir Rubiales varpi ljósi á kvenfyrirlitningu innan spænska sambandsins.

„Hvers konar öfugsnúnu veröld erum við í? Á stærsta sviðinu, þegar hún ætti að fá að fagna, þarf Jenni að verða fyrir líkamsárás af hendi þessa gaurs,“ sagði hún.

Megan Rapinoe.
Megan Rapinoe. AFP/William West

Rapinoe minntist einnig á það þegar Rubiales fagnaði sigri Spánar gegn Englandi á sunnudag uppi í áhorfendastúku með því að grípa um pung sinn.

„Það var annað atvik sem gefur til kynna svo djúpstæða kvenfyrirlitningu innan þessa sambands og hjá þessum manni þegar það var flautað til leiksloka og hann greip í klofið á sér.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert