Hetja Þjóðverja lést í nótt

Andreas Brehme fyrir úrslitaleikinn fræga í Róm árið 1990.
Andreas Brehme fyrir úrslitaleikinn fræga í Róm árið 1990. AFP

Knattspyrnumaðurinn fyrrverandi Andreas Brehme lést í nótt, 63 ára að aldri.

Þetta staðfesti eftirlifandi sambýliskona hans, Susanne Schäfer, í samtali við þýska fjölmiðla í morgun.

Brehme tryggði Vestur-Þjóðverjum heimsmeistaratitilinn árið 1990 í Róm á Ítalíu þegar Vestur-Þýskaland hafði betur gegn Argentínu í úrslitaleik, 1:0.

Brehme skoraði sigurmark leiksins úr vítaspyrnu á 85. mínútu en hann lék meðal annars með Bayern München og Inter Mílanó og einnig Kaiserslautern og Real Zaragoza.

Alls lék hann 86 A-landsleiki fyrir Vestur-Þýskaland og síðan Þýskaland á árunum 1984 til 1994 þar sem hann skoraði átta mörk.

Hann lést á heimili sínu í München eftir að hafa fengið hjartaáfall. Hann var fluttur á spítala í borginni þar sem hann var úrskurðaður látinn að því er fram kemur í frétt Sky Sports.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert