Óskuðu Greenwood dauða

Mason Greenwood í leik með Getafe gegn Real Madríd.
Mason Greenwood í leik með Getafe gegn Real Madríd. AFP/Pierre-Philippe Marcou

Stuðningsmenn Alavés hrópuðu ókvæðisorð að Mason Greenwood, leikmanni Getafe, þegar liðin áttust við í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu karla í gær.

„Deyðu, Greenwood,“ hrópuðu stuðningsmennirnir hástöfum á meðan leik liðanna stóð.

José Bordalas, knattspyrnustjóri Getafe, var ekki sáttur við að dómari leiksins, Figueroa Vázquez, hafi ekkert aðhafst þrátt fyrir söngvana.

Samkvæmt reglum spænsku deildarinnar á dómari að aðvara áhorfendur gerist þeir uppvísir að níðsöngvum. Haldi slíkir söngvar áfram er honum gert að stöðva leikinn og leikmenn ganga til búningsklefa.

Mun aldrei hætta

„Þetta var mjög mikilvægt smáatriði. Þeir sungu: „Deyðu, Greenwood.“ Samkvæmt reglunum á að stöðva leikinn þegar það gerist í annað sinn og leikmenn að fara inn í búningsklefa.

Það var ekki gert og ef dómararnir eru þeir fyrstu til að hlíta ekki reglunum munu svívirðingarnar og kynþáttaníðið aldrei hætta.

Það er það sem gerir okkur öll svo reið,“ sagði Bordalas í samtali við spænska miðlinn Marca.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert