Indverskur íþróttamaður féll á kynjaprófi

Santhi Soudarajan liggur á brautinni eftir að hafa komið önnur …
Santhi Soudarajan liggur á brautinni eftir að hafa komið önnur í mark í 800 metra hlaupi kvenna í Doha. AP

Indversk kona, sem fékk silfurverðlaun í 800 metra hlaupi á Asíuleikunum í Doha nýlega, féll á kynjaprófi og er talið líklegt, að hún verði svipt verðlaununum. Ekki hafa fengist nánari upplýsingar um hvers eðlis prófið var, að sögn fréttavefjar BBC.

Konan, sem heitir Santhi Soundararajan og er 25 ára, hefur verið ein af fremstu frjálsíþróttakonum Indlands að undanförnu og var kjörin besti íþróttamaðurinn á Indlandsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum fyrr á þessu ári.

Ekki var áskilið að íþróttamenn gengjust undir kynjapróf á leikunum í Doha en embættismenn eða íþróttasambönd gátu farið fram á að slík próf væru gerð. Soundararajan gekkst undir slíkt próf eftir að hún varð önnur í 800 metra hlaupi kvenna.

Indverskir fjölmiðlar segja, að Soundararajan hafi gengist undir kynjapróf eftir að hún vann silfurverðlaun á Asíumeistaramótinu í frjálsum íþróttum í Suður-Kóreu á síðasta ári og þá hafi hún staðist prófið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert