Guðjón Valur Sigurðsson, handknattleiksmaður hjá Gummersbach í Þýskalandi, er íþróttamaður ársins 2006 að mati íþróttafréttamanna sem tilkynntu niðurstöðu kjörsins í hófi á Grand hóteli rétt í þessu. Eiður Smári Guðjohnsen, knattspyrnumaður hjá Barcelona, varð í öðru sæti, en hann varð fyrir valinu tvö síðustu árin. Handknattleiksmaðurinn Ólafur Stefánsson hjá Ciudad Real, varð í þriðja sæti.
Guðjón Valur fékk 405 atkvæði af 460 mögulegum. Félagsmenn í Samtökum íþróttafréttamanna velja Íþróttamann ársins ár hvert og er þetta í 51. sinn sem það er gert. Allir 23 félagsmenn tóku þátt í kjörinu sem er leynilegt og fer þannig fram að hver og einn raðar tíu íþróttamönnum niður og fær sá sem settur er í fyrsta sæti 20 stig, sá sem nætur kemur fær 15, sá í þriðja sæti 10, sá sem lendir í fjórða sæti fær 7 stig, sá í fimmta 6 og svo koll af kolli þannig að sá sem settur er í tíunda sætið fær eitt stig. Síðan eru stigin talin saman og mest var hægt að fá 460 stig.
Þau sem hlutu atkvæði voru:
Guðjón Valur Sigurðsson, handknattleikur |
405 stig |
Eiður Smári Guðjohnsen, knattspyrna |
333 |
Ólafur Stefánsson, handknattleikur |
188 |
Birgir Leifur Hafþórsson, kylfingur |
156 |
Margrét Lára Viðarsdóttir, knattspyrna |
135 |
Örn Arnarson, sundmaður |
90 |
Ásthildur Helgadóttir, knattspyrna |
81 |
Auðunn Jónsson, lyftingar |
72 |
Sif Pálsdóttir, fimleikar |
70 |
Ragna Ingólfsdóttir, badminton |
44 |
Helena Sverrisdóttir, körfuknattleikur |
27 |
Dagný Linda Kristjánsdóttir, skíði |
24 |
Ívar Ingimarsson, knattspyrna |
10 |
Arnar Sigurðsson, tennis |
10 |
Jón Arnór Stefánsson, körfuknattleikur |
8 |
Logi Geirsson, handknattleikur |
7 |
Vignir Hlöðversson, blak |
6 |
Guðmundur Stephensen, borðtennis |
4 |
Brenton Birmingham, körfuknattleikur |
4 |
Þórarinn Eymundsson, knapi |
3 |
Ólöf María Jónsdóttir, kylfingur |
1 |
Logi Gunnarsson, handknattleikur |
1 |