Ítalskir fótboltaleikvangar verða ekki opnaðir almenningi á ný fyrr en öryggisráðstafanir hafa verið gerðar, þetta sagði Giuliano Amato, innanríkisráðherra Ítala að loknum neyðarfundi um ítalska knattspyrnu. Þá verða viðurlög við ofbeldi tengdu íþróttum hert og meðferð dómsmála flýtt.
Öllum knattspyrnuleikjum í landinu var frestað á föstudag eftir að lögreglumaður lést í ólátum eftir knattspyrnuleik Catania og Palermo. Aðgerðirnar verða ræddar á ríkisstjórnarfundi á miðvikudag.
„Aðeins þeir leikvangar sem uppfylla öll öryggisskilyrði verða opnaðir almenningi. Leika má á öðrum leikvöngum, en áhorfendur fá ekki að fara þangað fyrr en vellirnir standast þær kröfur sem gerðar eru. [...] Það fær enginn að fara á leikvang á borð við völl Catania, ég er harður á því”, sagði Amato að loknum fundinum.
Að sögn Luigi Scotti, aðstoðardómsmálaráðherra Ítalíu, eru aðeins fimm vellir sem uppfylla allar öryggiskröfur. Þetta munu vera ólympíuleikvangurinn í Róm, Artemio Franchi völlurinn í Sienna, ólympíuleikvangurinn í Túrin, Renzo Barbara völlurinn í Palermo og Renato Dall’Ara völlurinn í Bologna.