Indverjinn Viswanathan Anand vann Morelia/Linares skákmótið í gær en hann endaði með 8,5 vinninga, einum vinningi á undan Norðmanninum Magnus Carlsen og Rússanum Alexander Morozevítsj. Linares-mótið er það sterkasta, sem haldið er í heiminum á þessu ári.
í síðustu umferð gerði Anand jafntefli við Úkraínumanninn Vassilí Ívanstjúk, Carlsen tapaði fyrir Ungverjanum Peter Leko og Morozevítsj vann landa sinn Peter Svidler.
Ljóst er að þessi sigur tryggir Anand efsta sætið á næsta stigalista Alþjóðaskáksambandsins, FIDE, en Búlgarinn Veselin Topalov, sem hefur setið þar frá því Garrí Kasparov hætti keppni, fellur í 2. sætið. Hann varð í 7. og næstneðsta sæti í Linares.