Jakob Jóhann Sveinsson var dæmdur úr leik í 200 metra bringsundi á heimsmeistaramótinu í sundíþróttum í Melbourne í nótt. Þetta var síðasta keppnisgrein Jakobs og þess vegna er þátttöku hans lokið.
Ragnheiður Ragnarsdóttir setti hins vegar Íslandsmet í 100 metra skriðsundi og varð í 20. sæti af 130 keppendum í undanrásum en komst ekki í úrslit. Ragnheiður fékk tímann 56,06 sekúndur og bætti eldra met sitt sem var nærri þriggja ára gamalt um 7/10 úr sekúndu.
Í nótt keppir Örn Arnarson í 100 m flugsundi og þar næstu nótt verður Ragnheiður aftur á ferðinni í 50 m skriðsundi.