Ingvar Þór Jóhannesson gerði jafntefli við Hjörvar Stein Grétarsson í áttundu og næstsíðustu umferð Kaupþingsmóts Hellis og TR, sem fram fór í kvöld. Ingvari dugar hálfur vinningur gegn Snorra Bergssyni í lokaumferðinni, sem fram fer á morgun, til að tryggja sér sinn annan áfanga að alþjóðlegum meistaratitli.
Í stórmeistaraflokki hefur lettneski stórmeistarinn Normunds Miezis þegar tryggt sér sigur á mótinu en hann hefur 7 vinninga. Jón Viktor Gunnarsson sigraði sænska alþjóðlega meistarann Emil Hermansson í dag.
Í kvennaflokki eru Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir og franska skákkonan Izabelle Lamoureux efstar og jafnar með 1,5 vinning.
Níunda og síðasta umferð fer fram á morgun, sem og þriðja og síðasta umferð í kvennaflokki, og hefst taflmennska kl. 12.