Bjarne Riis játar lyfjanotkun

Reuters

Orðrómur um að hjólreiðakappinn Bjarne Riis myndi játa á sig lyfjanotkun á tíunda áratug síðustu aldar reyndist á rökum reistur, en Riis játaði á blaðamannafundi í dag að hafa notað lyf á árunum 1993 til 1998 til að bæta frammistöðu sína, hann sigraði í hjólreiðakeppninni Tour de France árið 1996. Þetta kemur fram á vefsíðu Berlingske Tidende.

Fyrrum liðsfélagar og samstarfsmenn Riis hafa að undanförnu játað að hafa notað lyf. Riis segist sjálfur hafa tekið sínar ákvarðanir, hann hafi sjálfur keypt lyfin og hann skelli ekki skuldinni á neinn annan en sjálfan sig. Þá segir hann lækna liðsins, sem hafa verið harðlega gagnrýndir ekki bera sérstaka ábyrgð, þeir hafi gert sitt besta til að vernda heilsu liðsmanna.

Þá bað Riis alla þá afsökunar sem hvöttu hann áfram og trúðu skýringum hans þau ár sem hann keppti, hann segist engu að síður stoltur af afrekum sínum.

Jef D’Hont, fyrrum nuddari Telekom liðsins, sem Riis keppti með hélt því fram í belgísku sjónvarpi, og síðar í bók sem hann gaf út, að Riis hafi notað Erythropoietin, öðru nafni EPO, sem er hormón sem eykur þéttni rauðra blóðkorna, og þar með súrefnisflutningsgetu blóðs og úthald.

Skrifaði D’Hont í bók sína að blóðið í Riis hafi verið orðið þykkt líkt og síróp, og að hann hefði getað látist af hjartabilun hvenær sem var.

Riis sagði á blaðamannafundinum að ásakanir nuddarans væru lygar og að samskipti þeirra hefðu verið stirð.

Riis er nú framkvæmdastjóri hjólreiðaliðs, sem kennt er við tölvufyrirtækið CSC. Blaðið Politiken segir að Riis hafi tryggt sér stuðning CSC og muni halda stöðu sinni þrátt fyrir játninguna í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert