Riis sagður ætla að viðurkenna lyfjaneyslu

Dönsk blöð fullyrða að hjólreiðamaðurinn Bjarne Riis, ein helsta íþróttastjarna Dana, muni í dag viðurkenna opinberlega að hann hafi notað óleyfileg lyf á 10. áratug síðustu aldar en hann vann meðal annars Frakklandshjólreiðarnar árið 1996. Að undanförnu hafa nokkrir liðsfélagar og samstarfsmenn Riis komið fram og viðurkennt lyfjaneyslu.

Lengi hefur verið orðrómur um að Riis hafi á sínum tíma notað óleyfileg lyf enda hafi lyfjaneysla þótt nánast sjálfsögð meðal atvinnuhjólreiðamanna. Riis hefur ávallt neitað þessu en nú er hann sagður ætla að gera hreint fyrir sínum dyrum.

Í gær komu tveir fyrrum liðsfélagar Riis í Team Telekomliðinu, fram á blaðamannafundi og viðurkenndu að hafa notað lyf til að bæta árangur sinn.

Riis er nú framkvæmdastjóri hjólreiðaliðs, sem kennt er við tölvufyrirtækið CSC. Blaðið Politiken segir að Riis hafi tryggt sér stuðning CSC og muni halda stöðu sinni þrátt fyrir játninguna í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert