Tólftu Smáþjóðaleikar Evrópu verða settir í Mónakó í kvöld og í fyrramálið hefst svo keppnin sem stendur fram til laugardags. 122 keppendur taka þátt í leikunum fyrir Íslands hönd og taka þeir þátt í 11 íþróttagreinum: körfubolta, blaki, strandblaki, sundi, frjálsum íþróttum, fimleikum, skotfimi, siglingum, júdó, borðtennis og tennis.
Þetta er í annað sinn sem Smáþjóðaleikarnir eru haldnir í furstadæminu Mónakó en þeir voru haldnir í smáríkinu árið 1987 en fyrstu leikarnir voru haldnir í San Marínó árið 1985.
Smáþjóðaleikarnir hafa einu sinni farið fram á Íslandi en það var árið 1997. Leikarnir eru haldnir á tveggja ára fresti og fara þeir fram á Kýpur 2009.
Örn Andrésson aðalfarstjóri íslenska hópsins sagði við mbl.is í dag að vel færi um íslenska liðið á skemmtiferðaskipinu sem hýsir alla keppendur á leikunum að heimamönnum undanskildum. ,,Við höfum jafnan staðið okkur vel á Smáþjóðaleikunum og ég er bjartsýnn á að svo verði áfram. Við eigum frábært íþróttafólk sem við væntum mikils af," sagði Örn.