Lars Lagerbäck varar við of mikilli bjartsýni

Eyjólfur Sverrisson landsliðsþjálfari ræðir við sína menn.
Eyjólfur Sverrisson landsliðsþjálfari ræðir við sína menn. mbl.is/Eyþór
Eftir Skúla Unnar Sveinsson í Svíþjóð skuli@mbl.is
Talsvert var fjallað um landsleik Svía og Íslendinga í knattspyrnu í sænskum fjölmiðlum í gær. Það er eðlilegt, enda ætla Svíar sér sigur á sjálfum þjóðhátíðardegi sínum, en íslenku leikmennirnir eru hins vegar ákveðnir í að koma í veg fyrir flugeldasýningu á Råsunda-leikvanginum í Solna, í útjaðri Stokkhólms.

Sænsku blöðin gera því skóna að leikurinn eigi varla að vera nema formsatriði fyrir sænska liðið – ekki ósvipað því og var heima fyrir landsleikinn við Liechtenstein á laugardaginn var. En bæði leikmenn sænska liðsins og þjálfari þess, Lars Lagerbäck, vara fjölmiðla við of mikilli bjartsýni. „Það hefur ekkert hentað okkur vel að spila á móti Íslendingum. Þó svo að þeir hafi gert jafntefli á heimavelli við Liechtenstein þá situr sá leikur ekki í þeim á móti okkur, nema síður sé. Þeir koma örugglega ákveðnir til leiksins eins og venjulega og þeir munu verjast vel og sækja síðan hratt þegar færi gefst," sagði Lagerbäck í gær. Og dálkahöfundur í Dagens Nyheter er sammála: „Leikaðferð Lagerbäck, að verjast vel og sækja síðan hratt upp kantana og nota til þess marga menn, gengur vel á móti sterkari liðum. En þegar kemur að því að stjórna leik og vera meira með boltann þá virðist leikaðferðin bregðast og það er nákvæmlega þannig staða sem kemur upp í leiknum við Ísland. Menn skulu því ekki vera allt of bjartsýnir."

Byrjunarliðið vefst fyrir Svíum

Svíar eru ekki alveg með það á hreinu hvernig lið þeirra verður skipað í kvöld þegar flautað verður til leiks. Johan Elmander er í leikbanni og þykja þrír leikmenn fyrst og fremst koma til greina í hans stað. Það eru þeir Markus Rosenberg, Zlatan Ibrahimovic og Rade Prica.

„Ég er tilbúinn í slaginn, en ég held að allir geri sér grein fyrir því að ég get ekki spilað á fullu í níutíu mínútur," sagði Ibrahimovic á blaðamannafundi í fyrrakvöld og það lá vel á kappanum. Þegar hann var spurður hvers vegna hann væri svona kátur hló hann og sagðist alltaf vera svona kátur. "Það eru bara ákveðnir blaðamenn sem segja að ég sé ekki léttur og skemmtilegur," sagði hann og glotti út yfir þéttsetinn salinn.

Fjarvera Eiðs gæti haft góð áhrif á liðið

Eins og allir vita verður Eiður Smári Guðjohnsen ekki í íslenska liðinu. „Eiður er frábær leikmaður sem getur gert ýmislegt upp á eigin spýtur. En fjarvera hans gæti haft hvetjandi áhrif á aðra leikmenn sem munu þjappa sér enn meira saman og treysta betur hver á annan," segir Lagerbäck og gefur lítið fyrir þá ábendingu að Eiður Smári hafi gert 17 landsliðsmörk á meðan allir aðrir í liðinu hafi gert 14 mörk samtals.

Hægri bakvörður Svía, Niclas Alexandersson, mun í kvöld leika sinn 100. landsleik og verða þar með fjórði Svíinn til að ná því marki. Hann er 36 ára og lék sinn fyrsta landsleik gegn Austurríki árið 1993, kom þá inn á á 80. mínútu. Hann á talsvert í land með að ná þeim sem eru fyrir ofan hann á listanum yfir þá sem hafa spilað flesta leiki því þar trónir Thomas Ravelli á toppnum með 143 landsleiki, Roland Nilsson lék 116 landsleiki og Björn Nordqvist 115.

Þegar Alexandersson var spurður hvort leikurinn við Ísland yrði ekki eins og létt æfing tók hann spurningunni illa: „Þið haldið alltaf að við getum farið í landsleiki með hálfum huga. Það er ekki hægt í dag, alveg sama á móti hverjum er verið að spila. Þó svo að Íslendingar hafi átt dapran leik á laugardaginn og gert jafntefli á heimavelli þá skuluð þið fletta aðeins aftur á bak í sögunni og þið þurfið ekki að fara langt. Ísland vann Norður-Íra 3:0 í Belfast í fyrsta leiknum í riðlinum en við töpuðum þar 2:1. Síðan fóru Íslendingar til Spánar og þar var markalaust þar til rétt í lokin. Það er því ekkert gefið í þessu – ekkert."

Líklegt byrjunarlið Svía er þannig að Andreas Isaksson stendur í markinu, hægri bakvörður verður Niclas Alexandersson og vinstra megin verður Mikael Nilsson eða Max von Schlebrügge. Miðverðir verða þeir Petter Hansson og Olof Mellberg. Á hægri kantinum verður Christian Wilhelmsson og Fredrik Ljungberg á þeim vinstri. Andres Svensson verður við hlið hans og Tobias Linderoth verður einnig á miðjunni. Frammi verður Marcus Allbäck og síðan einhver þeirra þriggja sem hér að framan eru nefndir, Rosenberg, Ibrahimovic eða Prica.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert