Ekki lengur álitinn sigurvegari

Reuters

Danski hjólreiðakappinn Bjarne Riis, sem vann Tour de France-hjólreiðarnar árið 1996, er ekki lengur álitinn sigurvegari af forsvarsmönnum keppninnar eftir að hann viðurkenndi að hafa neytt ólöglegra lyfja á þessum tíma. „Við höfum fjarlægt hann af lista sigurvegara og teljum að hann geti ekki lengur litið á sig sem sigurvegara,“ sagði Philippe Sudres, talsmaður keppninnar. Alþjóðlega hjólreiðasambandið, UCI, segir að of langur tími sé liðinn til að hægt sé að formlega svipta Riis titlinum. Sambandið hvetur þó Riis til að skila gulu treyjunni, sigurtákni keppninnar.

Riis, sem að nú er hættur að keppa, viðurkenndi í síðasta mánuði að hafa notað EPO, hormónalyf sem eykur súrefnisflutningsgetu manna, og staðfesti þar með getgátur sem lengi hafa verið uppi. Ef UCI ákveður að svipta Riis formlega titlinum verður það í fyrsta skipti í 104 ára sögu keppninnar sem slíkt gerist. Annar hjólreiðakappi, Floyd Landis, sem vann keppnina á síðasta ári, bíður þess þó að vera sviptur titlinum en hann féll á lyfjaprófi.

Næst fara Tour de France-hjólreiðarnar fram 7. júlí.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert