Kínversk yfirvöld hafa kveðið upp endanlegan úrskurð í máli fyrirtækis sem hugðist selja poka af andrúmslofti heimsmeistaramótsins í knattspyrnu sem haldið var í Þýskalandi síðasta sumar. Salan var bönnuð vegna þess að loft er of óljóst hugtak til að vera notað sem söluvara að mati yfirvalda. Li Jie, forstjóri fyrirtækisins, segir að markmiðið með sölu pokanna hafi verið að gefa fólki sem ekki komst á HM færi á að fanga andrúmsloft mótsins.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem fyrirtæki Li kemst í fréttirnar því þetta sama fyrirtæki reyndi fyrir nokkrum árum að selja landssvæði á tunglinu og hafði selt 20 hektara áður en að yfirvöld gripu í taumana. Li sagði að HM-pokarnir, sem fólk átti að geta hengt utan um hálsinn og þannig andað að sér lofti úr þeim, hefðu verið seldir á 6,6 dali, rúmlega 400 krónur, ef salan hefði verið leyfð. Það gekk hins vegar ekki eftir og það verða því aðeins þeir heppnu sem gerðu sér ferð til Þýskalands sem munu hafa upplifað það að anda að sér þeirri mögnuðu HM-stemmningu sem þar skapaðist.