Spenna er hlaupin í Íslandsmótið í rallakstri en Sigurður Bragi Guðmundsson og Ísak Guðjónsson á Lancer Evo 7 sigruðu Shellsport Skagafjarðarrallið í dag. Systkinin Daníel og Ásta Sigurðarbörn leiddu keppnina örugglega en bilun í Lancerbifreið þeirra kom í veg fyrir að þau næðu að aka síðustu sérleiðina.
Í öðru sæti urðu Jón Bjarni Hrólfsson og Borgar Ólafsson á Subaru Impreza og þriðju Óskar Sólmundsson og Valtýr Kristjánsson, sömuleiðis á Subaru.
Sigurður Bragi og Ísak eru með forystu á Íslandsmótinu, með 26 stig, einu stigi á undan Daníel og Ástu. Jón Bjarni og Borgar eru með 17 stig. Í dag voru eknar fjórar sérleiðir um Mælifellsdal og tvær leiðir um Nafir, innanbæjar á Sauðárkróki.