“Það er áskorun útaf fyrir sig að spila við lið sem við “eigum” að vinna. Ég reikna með því að þetta sé svipað lið og það serbneska, líkamlega sterkir leikmenn sem geta verið erfiðir viðureignar,” sagði Edda Garðarsdóttir, miðjumaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, við mbl.is í Slóveníu í dag.
Eftir Víði Sigurðsson í Slóveníu
vs@mbl.is
Edda var þá að ljúka fyrri æfingu dagsins með íslenska liðinu í bænum Zrece þar sem liðið dvelur. Hún er orðin ein sú reyndasta í landsliði Íslands og spilar sinn 52. A-landsleik á morgun. Aðeins Katrín Jónsdóttir og Þóra Björg Helgadóttir eiga fleiri leiki að baki af þeim sem skipa landsliðshópinn í þessum leik.
“Ég talaði við Vönju Stefanovic, leikmann Vals og serbneska landsliðsins, og hún sagði að ef við myndum pressa þær slóvensku og sækja stíft, þá ættum við að sigra þær. Við erum með mjög sterka sóknarmenn eins og Hólmfríði, Margréti Láru og Dóru Maríu, og ég efast ekki um að við munum skora að minnsta kosti eitt mark og það er stundum nóg.
Við þurfum líka að gæta þess að spila góðan varnarleik og það mun skila okkur mörkum. Slóvenar hafa spilað með fimm manna vörn gegn Serbum og Frökkum og það væri því fínt að geta sótt hratt þegar þær hafa komið framar og ekki náð að pakka í vörnina að nýju,” sagði Edda.
Hún tók undir að það væri mikilvægt að skora snemma leiks til að brjóta mótspyrnu slóvenska liðsins á bak aftur. “Já, en maður verður líka að vera þolinmóður ef það gengur ekki upp því markið gæti látið bíða eftir sér allt fram á 90. mínútu.”
Edda sagðist ánægð með aðstæður í Slóveníu. “Þetta er fínt. Sigurður Ragnar segir að keppnisvöllurinn sé góður og við sjáum það betur þegar við æfum á honum seinna í dag. Það eina sem gæti truflað er hitinn. Enda þótt það sé búin að vera bongóblíða heima á Íslandi í sumar, þá hefur hitinn verið 14-15 stig á meðan við komum til með að spila í 28 stiga hita hérna í Slóveníu.
En þá er bara að drekka nóg af vatni og hvíla sig vel. Margar okkar þekkja svo sem aðstæður eins og þessar, ég spilaði hérna í Slóveníu í Evrópukeppninni fyrir þremur árum í logni og 35 stiga hita, og landsliðið hefur spilað marga leiki í 20 stiga hita eða meira á undanförnum árum,” sagði Edda.
Markmiðið er einfalt. “Þrjú stig, og ekkert annað. Við viljum ljúka fyrri umferðinni í efsta sæti, það er okkar draumur og við ætlum að klára dæmið hér. Það er mikil einbeiting í hópnum og við stefnum allar að því sama,” sagði Edda Garðarsdóttir.