Ísland tapaði óvænt 2:1 gegn Slóveníu á útivelli í undankeppni EM í knattspyrnu kvenna. Lokatölur 2:1 eftir draumabyrjun Íslendinga. Þetta eru fyrstu stigin sem liðið tapar í riðlinum og fyrstu mörkin sem liðið fær á sig. Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is.
Dómarinn flautar til leiksloka og slóvenskur sigur er staðreynd.
Margrét Lára í ágætu færi í upbótartíma en markvörðurinn ver. Ísland fær horn en eftir klafs endar boltinn í höndum markvarðarins sem hefur haft í nægu að snúast í þessum leik.
Fjórum mínútum hefur verið bætt við leiktímann.
Íslenska liðið er með boltann lang tímum saman en fyrirgjafir og sendingar hafa ekki verið að ganga upp.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson skipti tveimur leikmönnum inn á völlinn á 87. mínútu. Rakel Logadóttir og Sara Björk Gunnarsdóttir komu inn á en af velli fóru Hólmfríður Magnúsdóttir og Katrín Ómarsdóttir.
Margrét Lára fær gott marktækifæri í vítateignum miðjum á 84. mínútu en hitti boltann illa og markvörðurinn varði.
Markvörður slóvenska liðsins ver laust skot Margrétar Láru frá vítateigslínu á 82. mínútu.
Greta Mjöll Samúelsdóttir fékk gott færi vinstra megin í vítateignum á 79. mínútu en skaut framhjá fjærstönginni. Tveir íslenskir leikmenn komu aðvífandi en rétt misstu af boltanum.
Íslenska liðinu hefur ekki tekist að herða tök sín á leiknum á nýjan leik og útlitið er farið að versna. Slóvenar eru þó ekki að skapa sér neitt og eru farnar að tefja leikinn við hvert tækifæri.
Íslenska liðið hefur losað tök sín á leiknum á undanförnum mínútum og Sigurður Ragnar hefur skipt Gretu Mjöll Samúelsdóttur inn á sem varamanni á 69. mínútu og út af fór Dóra María Lárusdóttir.
Þrumuskott Dóru Maríu fer rétt framhjá markinu á 61. mínútu. Dóra fékk boltann hægra megin í vítateignum eftir undirbúning Margrétar.
Varnarmaður Slóvena bjargar á marklínu eftir skalla frá Katrínu á 57. mínútu. Heimaliðið er nú í nauðvörn.
Margrét Lára skýtur í slána úr dauðafæri á 55. mínútu.
Íslenska liðið er að þreifa fyrir sér á fyrstu mínútum síðari hálfleiks. Íslensku leikmennirnir vildu fá vítaspyrnu á 50. mínútu en fengu ekki. Hólmfríður Magnúsdóttir féll þá í vítateignum.
Fyrri hálfleikur
Flautað hefur verið til leikhlés og staðan er 2:1 fyrir Slóveníu. Tölurnar gefa ekki góða mynd af leiknum en Slóvenar hafa alls átt tvö skot að íslenska markinu. Íslenska liðið hefur hins vegar skapað sér mun fleiri skotfæri eða sex.
Margrét Lára reynir þrumuskot úr aukaspyrnu á 43. mínútu en boltinn fer beint á slóvenska markvörðinn sem varði. Hálfri mínútu síðar skýtur Katrín Ómarsdóttir yfir markið rétt utan vítateigs.
Hólmfríður fær ágætt færi vinstra megin í vítateignum en lyfti boltanum hátt yfir markið á 41. mínútu.
Margrét Lára skaut yfir úr dauðafæri í miðjum vítateignum á 39. mínútu. Færið kom eftir góðan undirbúning Katrínar Ómarsdóttur. Íslendingar eru að þyngja sóknina.
Dóra Stefánsdóttir fékk ágætt færi rétt innan vítateigs á 36. mínútu en hitti boltann illa og skaut framhjá. Færið kom eftir góða rispu og fyrirgjöf Dóru Maríu Lárusdóttur á hægri kantinum. Lítið hefur verið um marktækifæri undandarnar mínútur en íslenska liðið hefur verið að reyna að sækja upp vinstri kantinn, þar sem Hólmfríður Magnúsdóttir og Guðný Óðinsdóttir hafa verið nokkuð ógnandi.
Dóra María Lárusdóttir skallar yfir mark Slóvena á 24. mínútu eftir góða hornspyrnu Eddu Garðarsdóttur. Dóra var óvölduð á fjærstönginni en tókst ekki að stýra knettinum undir þverslána.
2:1 Anja Milenkovic er búinn að koma Slóveníu í 2:1 eftir 22 mínútna leik. Markið kom úr vítaspyrnu sem var dæmd á Guðnýju Óðinsdóttir þegar hún keyrði inn í hliðina á sóknarmanni.
Dóra Stefánsdóttir fær gult spjald á 19. mínútu fyrir að sparka í hnéið á andstæðingi sem lék fram hjá henni. Óviljaverk hjá Dóru og fremur strangur dómur þarna á ferðinni.
Íslenska liðið er öllu sterkari aðilinn í leiknum þegar rúmlega fimmtán mínútur eru liðnar. Liðinu hefur þó ekki tekist að skapa sér afgerandi marktækifæri eftir að Margrét skoraði. Dóra Stefánsdóttir og Edda Garðarsdóttir reyndu báðar markskot í sömu sókninni, en varnarmenn Slóvena komust fyrir skotin.
1:1 Manja Benak jafnar með stórglæsilegu skoti úr aukaspyrnu af mjög löngu færi. Þrumufleygur hennar hafnaði efst í markhorninu vinstra megin við Þóru. Sannkallað draumamark hjá Benak og kemur aðeins tveimur mínútum eftir mark Íslands.
0:1 Margrét Lára Viðarsdóttir sleppur inn fyrir vörn Slóveníu og skorar með góðu skoti strax á 4. mínútu.Byrjunarlið Íslands er þannig skipað:
Þóra Helgadóttir - Embla Grétarsdóttir, Katrín Jónsdóttir, Guðrún Gunnarsdóttir, Guðný Óðinsdóttir - Dóra María Lárusdóttir, Edda Garðarsdóttir, Dóra Stefánsdóttir, Katrín Ómarsdóttir, Hólmfríður Magnúsdóttir - Margrét Lára Viðarsdóttir.