Indverski skákmaðurinn Viswanathan Anand segist njóta þess að vera heimsmeistari á ný en hann tryggði sér heimsmeistaratitilinn í skák í gærkvöldi þegar hann gerði jafntefli við Ungverjann Peter Leko í síðustu umferð heimsmeistaramótsins í Mexíkó.
Anand endaði með 9 vinninga. Rússinn Vladímír Kramnik, fyrrverandi heimsmeistari, og Ísraelsmaðurinn Boris Gelfand urðu jafnir í 2.-3. sæti vinningi á eftir Anand.
„Ég lenti í tveimur erfiðum skákum, sem er ekki áhyggjuefni í móti af þessum styrkleika," sagði Anand, sem var stigahæsti skákmaður heims fyrir mótið. „Ég er afar ánægður með mína taflmennsku. Við vorum með gott lið, mér leið vel, þjálfarinn aðstoðaði mig við að þróa margar áhugaverðar hugmyndir. Það gekk allt upp."
Anand þurfti helst að taka á honum stóra sínum í næst síðustu umferðinni þegar hann mætti Rússanum Alexander Grístsjúk, sem hefur í auknum mæli snúið sér að póker. Anand tókst að hanga á jafntefli en skákinni lauk ekki fyrr en eftir 73 leiki þegar aðeins kóngarnir voru eftir á borðinu.
Anand, sem er 37 ára, varð einnig heimsmeistari FIDE árið 2000 en þá voru tveir heimsmeistaratitlar í skák í boði. Hann lærði að tefla 6 ára og varð skákmeistari Indlands 16 ára.
„Það er eins og hann sé með tölvu í höfðinu," segir Aruna Anand, kona hans. „Heilinn í honum starfar hraðar en í öðrum.
Samkvæmt reglum FIDE getur Kramnik krafist þess að Anand mæti honum í einvígi um heimsmeistaratitilinn á næsta ári.