Mikið var um dýrðir í Shanghai í Kína nú síðdegis þar sem heimsleikar Special Olympics voru settir. Um er að ræða stærstu íþróttahátíð, sem haldin er í heiminum í ár en þar eru 7300 þátttakendur frá 165 þjóðum, þar á meðal Íslandi. Meðal viðstaddra var Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, Arnold Schwarzenegger, ríkisstjóri í Kalíforníu og kínverski körfuboltamaðurinn Yao Ming.
Special Olympics eru íþróttahátíð seinfærra og þroskaheftra íþróttamanna. Special Olympics samtökin voru stofnuð af Eunice Kennedy-Shriver, systur Johns F. Kennedy Bandaríkjaforseta og tengdamóður Schwarzeneggers.
„Ég lék hetju í hasarmyndum en sá hasar er ekkert miðað við það sem fer fram inni á þessum leikvangi í dag," sagði Schwarsenegger.
Yao Ming, sem leikur með bandaríska körfuboltaliðinu Houston Rockets, missti af upphafi keppnistímabilsins vestanhafs vegna þess að hann tók þátt í setningarathöfninni og fékk sekt frá liði sínu fyrir vikið. „Það var þess virði. Ekkert er mikilvægara en að vinna fyrir Special Olympics," sagði hann við fréttastofuna Xinhua.