Marion Jones viðurkennir lyfjanotkun

Bandaríska frjálsíþróttakonan Marion Jones hefur í bréfi til fjölskyldu og vina viðurkennt í fyrsta skipti, að hún hafi notað steralyf fyrir ólympíuleikana árið 2000 þar sem hún vann fimm verðlaun, þar af þrenn gullverðlaun. Segist Jones í bréfinu ætla að játa sig seka í dag þegar henni verður birt ákæra fyrir að hafa logið að starfsmönnum bandarísku alríkislögreglunnar um lyfjaneyslu sína.

Jones mun að sögn bandarískra fjölmiðla koma fyrir rétt í White Planes í New York í dag vegna málsins.

Í bréfinu, sem Washington Post birti á fréttavef sínum í gærkvöldi, segist Jones hafa tekið steralyfið THG, sem framleitt var af lyfjafyrirtækinu Bay Area Laboratory Cooperative (BALCO) og nefnt var „the clear", en það greindist ekki í venjulegum lyfjaprófum á þessum tíma. Segist Jones hafa byrjað að taka lyfið árið 1999 og haldið því áfram í 2 ár.

Margir kunnir íþróttamenn voru bendlaðir við svonefnt BALCO lyfjahneyksli þegar í ljós kom hvers eðlis starfsemi fyrirtækisins var. Margir þeirra komu fyrir rannsóknarkviðdóm, þar á meðal Jones. Fimm íþróttamenn voru fundnir sekir um lyfjanotkun, þar á meðal Tim Montgomery, barnsfaðir og fyrrum sambýlismaður Jones en hann var sviptur heimsmeti í 100 metra hlaupi vegna málsins.

Jones hefur til þessa ávallt neitað því að hafa notað steralyf. Hún stefndi Victor Conte, stofnanda BALCO, fyrir meiðyrði en Conte hélt því fram að Jones hefði notað steralyf. Málinu lauk með dómssátt árið 2005. Vegna þessara mála fékk Jones, sem er 31 árs, ekki lengur boð á frjálsíþróttamót og ferill hennar fjaraði út.

Að sögn Washington Post segir Jones í bréfinu, að Trevor Graham, fyrrum þjálfari hennar, hafi fyrst gefið henni lyfið THG og sagt henni að það væri repjufræjaolía. „Grunsemdir hefðu átt að vakna þegar hann bannaði mér að segja nokkrum frá þessu," segir Jones í bréfinu.

Það var raunar Graham, sem kom BALCO-málinu af stað með því að senda sýnishorn af THG til lyfjaeftirlitsmanna. Þeir létu rannsaka sýnið og sáu að um var að ræða áður óþekkt steralyf.

Jones segir, að þegar útsendarar lögreglunnar spurðu hana hvort hún hefði notað lyfið og sýndu henni hvernig það leit út hefði hún fyllst skelfingu og neitað þótt hún hefði þekkt vöruna. Það varðar allt að 5 ára fangelsi og 250 þúsund dala sekt að segja alríkislögreglumanni ósatt. Að sögn Washington Post segist Jones reikna með því að verða dæmd í hálfs árs fangelsi.

Jones mun, að sögn blaðsins, einnig játa að hafa sagt ósatt þegar hún var yfirheyrð um annað óskylt mál, sem tengist 25 þúsund dala ávísun, sem Tim Montgomery afhenti henni. Montgomery játaði fyrir rétti í New York á þessu ári, að hafa tekið þátt í fjársvikamillu þar sem hann fékk greiðslur fyrir að innleysa falsaðar ávísanir.

Jones féll á lyfjaprófi á síðasta ári eftir að þvagsýni sem tekið var á bandaríska meistaramótinu reyndist innihalda svonefnt EPO. Annað sýni, sem tekið var, reyndist hins vegar hreint og því var málið látið niður falla.

Jones var á sínum tíma einn fyrsti milljónamæringurinn í röðum kvenfrjálsíþróttamanna. Hún fékk jafnan á milli 70-80 þúsund dali, jafnvirði 4,5-5 milljóna króna, fyrir að mæta á frjálsíþróttamót og að minnsta kosti 1 milljón dala fyrir auglýsingasamninga. Jones býr nú í Austin í Texas og giftist nýlega frjálsíþróttamanninum Obadele Thompson. Í skjölum, sem hún lagði fyrir rétt á þessu ári, segist hún vera nánast eignalaus.

Marion Jones.
Marion Jones. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert