Guðlaug Þorsteinsdóttir sigraði í þriðju skák einvígis hennar og Hallgerðar Helgu Þorsteinsdóttur sem fram fór í dag. Þar með hefur Guðlaug tryggt sér sigur í einvíginu. Guðlaug hlaut 2,5 vinning en Hallgerður hálfan.
Í dag hafði Guðlaug hvítt og tefld var Caro-Kann vörn. Guðlaug náði snemma yfirburðarstöðu og vann öruggan sigur í 21 leik.
Þetta er sjötti Íslandsmeistaratitill Guðlaugar en hún varð fyrst Íslandsmeistari 1975 þegar mótið var haldið í fyrsta sinn. Einnig varð Guðlaug Íslandsmeistari kvenna árin 1982, 1989, 2002 og 2005.
Hallgerður, sem er aðeins 14 ára, verður því að bíða eitthvað lengur eftir sínum fyrsta titli en frammistaða hennar á Íslandsmótinu vakti mikla athygli, en þar fékk hún 7,5 vinning í 8 skákum eins og Guðlaug, og sló þar við mörgum þrautreyndum landsliðskonum.