Mons Ivar Mjelde, þjálfari norska meistaraliðsins Brann, segir að hann eigi Teiti Þórðarsyni mikið að þakka. Þeir störfuðu saman hjá félaginu árið 1988 þegar Mjelde var leikmaður og Teitur þjálfari Brann. Síðar varð Mjelde aðstoðarþjálfari Brann þegar Teitur var aðalþjálfari. Brann varð á mánudaginn norskur meistari í fyrsta sinn í 44 ár og í þriðja sinn í sögu félagsins. Mjelde segir í viðtali við norska Dagbladet að Teitur hafi komið auga á hæfileika hans sem knattspyrnumanns þegar Teitur var þjálfari Brann árið 1988. Mjelde fékk tækifæri til þess að sýna sig og sanna í framlínu liðsins og þeir hittust síðan aftur í herbúðum Brann þegar Teitur kom á ný til félagsins árið 2000. "Teitur sá eitthvað í mér sem aðrir sáu ekki," segir Mjelde en hann var aðstoðarmaður Teits árið 2002. Mjelde fékk síðan tækifæri til þess að taka liðið að sér þegar Teitur fór frá Brann sumarið 2002.