Manchester United hefur gengið frá kaupum á framherjanum John Cofie frá enska 1. deildarliðinu Burnley. Cofie er Ghanamaður fæddur í Þýskalandi og er aðeins 14 ára gamall. Fréttavefur BBC greinir frá því að Manchester United hafi haft betur í baráttunni við Liverpool og Chelsea um að klófesta piltinn sem þykir gríðarlega efnilegur.
Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp en Burnley er sagt hafa hafnað 250.000 punda tilboði frá Liverpool í piltinn. Burnley hefur tryggt sér 25% af söluverði Cofie verði hann seldur til annars liðs og í samningi Burnley og Manchester United kveður á um að United mætir Burnley í vináttuleik innan eins árs frá því Cofin skrifar undir atvinnumannasamning sem hann má ekki gera fyrr en hann verður 17 ára gamall.