Daninn, sem réðist á dómarann í leik Dana og Svía á Parken í Kaupmannahöfn í sumar, var í dag dæmdur í Eystra-Landsrétti í 20 daga fangelsi fyrir líkamsárás. Maðurinn var í héraðsdómi dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi og 40 daga samfélagsþjónustu en þeim dómi var áfrýjað.
Dómurinn sagði, að þátttakendur í íþróttakappleikjum og ekki síst dómarar yrðu að geta reiknað með að fá að vera ótruflaðir og höfð væri hliðsjón af því við ákvörðun refsingar. Hún væri óskilorðsbundin til að fæla aðra frá því, að fremja svipuð brot.
Danska knattspyrnusambandið hefur höfðað bótamál gegn Dananum, sem nefndur er Ronnie. Krefst sambandið 1,9 milljóna danskra króna í bætur fyrir tapaðar tekjur af áhorfendum en Danir urðu að leika tvo næstu heimaleiki sína fyrir luktum dyrum.
„Afsakið, afsakið, afsakið," var á sínum tíma haft eftir Ronnie eftir að áfengisvíman rann af honum en hann hafði fengið sér heldur of marga bjóra meðan á leiknum stóð.