Guðrún Jóhannsdóttir, Skylmingafélagi Reykjavíkur, og Ragnar Ingi Sigurðsson, FH, hafa verið kjörin skylmingafólk ársins af stjórn Skylmingasambands Íslands.
Guðrúnu gekk vel á alþjóðamótum á árinu og má hæst telja glæsilega frammistöðu á Grand Prix heimsbikarmóti í Hanoi þar sem hún m.a. vann stúlku sem var á meðal tíu efstu á heimslista og var á meðal 32 efstu og á Evrópumeistaramótinu í Gent þar sem hún hafnaði í 28. sæti sem er besti árangur Íslendings á EM. Hún var í þriðja sæti á Opna kanadíska meistaramótinu og vann héraðsmeistaramót Quebec.
Ragnar vann öll mót sem haldin voru hér á landi á árinu. Hann varð Íslandsmeistari í 10. skiptið á árinu og varði Íslandsmeistaratitli í liðakeppni með liði sínu FH. Á síðasta keppnistímabili sigraði Ragnar á þremur satellite heimsbikarmótum, í Kaupmannahöfn, Helsinki og í Hafnarfirði, og var auk þess á verðlaunapalli í Örebro og Edinborg. Samanlagður árangur á þessum mótum færði honum sigurinn í Norður-Evrópumótaröðinni. Ragnar náði fjórða Norðurlandameistaratitlinum á þessu ári. Auk þess að keppa hefur Ragnar Ingi staðið frábærlega vel að uppbyggingu skylmingastarfs í Hafnarfirði, en hann er aðalþjálfari Skylmingadeildar FH, segir í tilkynningu Skylmingasambands Íslands.