Sundmaðurinn Örn Arnarson tryggði sér í morgun sæti í undanúrslitum í 100 m baksundi á Evrópumeistaramótinu í sundi í 25 m braut þegar hann náði sjötta besta tímanum í undanrásum, 52,75 sekúndur. Hann keppir í undanúrslitum síðdegis í dag en þeir sem voru með sextán bestu tímana í morgun spreyta sig þá í tveimur riðlum. Mótið fer fram í Ungverjalandi.
Örn var 1,01 sekúndur frá eigin Íslandsmeti sem hann setti fyrir fjórum árum. Þjóðverjinn Helge Meeuw hafði yfirburði í sundinu í morgun og var t.d. 1,17 sekúndum á undan Erni.
Jakob Jóhann Sveinsson varð í 33. sæti í undanrásum 50 m bringusunds á 28,52 sekúndum sem er 30/100 úr sekúndu frá hans eigin meti. Jakob er úr leik.
Ragnheiður Ragnarsdóttir varð í 33. sæti í 50 m baksundi á 29,66 sekúndum. Þetta er aukagrein hjá Ragnheiði í mótinu. Hún var hálfri sekúndu frá Íslandsmeti Kolbrúnar Ýrar Kristjánsdóttur.