Ekki er munur á aðbúnaði kynjanna til íþróttaiðkunar að mati þriggja afrekskvenna í íþróttum sem voru meðal tíu efstu í kjöri íþróttamanns ársins.
„Ég held að aðbúnaður stráka og stúlkna sé sá sami, að minnsta kosti í mínu félagi, og ekki erfiðara fyrir stelpur að pluma sig,“ segir knattspyrnukonan Margrét Lára Viðarsdóttir. „Það eru frábærir þjálfarar, frábær aðstaða fyrir bæði kyn og ekkert gert upp á milli í þeim efnum.“ Hún segir ekki mikinn mun heldur í meistaraflokki, þó að peningarnir verði aldrei þeir sömu, þá sé aðstaða og umgjörð sú sama.
Ekki er munur á aðstöðu kynjanna í badminton, að sögn Rögnu Ingólfsdóttur. „Þetta er einstaklingsíþrótt. Það sem gildir er að sýna áhuga og hæfileika. Ef það er fyrir hendi, þá er það einstaklingurinn sem horft er til, sama hvort það er strákur eða stelpa.“
Ragnheiður Ragnarsdóttir segir ekki mikinn aðstöðumun milli stráka og stúlkna í sundi og bendir einnig á að það sé einstaklingsíþrótt. „Strákar fá að jafnaði meiri umfjöllun, til dæmis fótboltinn, en ég kvarta ekkert yfir því. Ég stend mig ekki vel til að fá umfjöllun eða athygli. Ég geri þetta fyrir sjálfa mig og það er bara jákvætt að fá góða umfjöllun þegar að því kemur.“