Skíðastökk kvenna úti í kuldanum

Frá skíðastökkskeppni í Þrándheimi.
Frá skíðastökkskeppni í Þrándheimi. AP

Konur fá ekki að taka þátt í skíðastökki á vetra ólympíuleikunum árið 2010 samkvæmt ákvörðun Alþjóða ólympíunefndarinnar, IOC. Í tilkynningu frá IOC segir að tæknilegar ástæður vegi þungt í ákvörðun nefndarinnar og ekki sé um kynjamisrétti að ræða.

Katie Willis, 16 ára gömul stúlka frá Calgary í Kanada, segir í viðtali við Canadian Press að ákvörðun IOC hafi ekki komið sér á óvart en hún hefur á undanförnum misserum sent fyrirspurnir IOC vegna málsins. Móðir hennar kærði ákvörðun IOC til mannréttindadómstóls Kanada á þeim grunni að það væri mismunun að útiloka konur frá þátttöku í skíðastökki á ÓL. Ríkisstjórn Kanada hefur óskað eftir því að IOC breyti ákvörðun sinni en næstu vetrarleikar fara fram í Vancouver í Kanada.

Helstu rök IOC fyrir því að konur fá ekki að keppa í skíðastökki á ÓL árið 2010 eru þau að greinin eigi sér ekki langa sögu hjá konum og aðeins eitt heimsmeistaramót fer fram áður en keppt verður á ÓL. IOC tók fyrst ákvörðun árið 2006 um að hafa ekki skíðastökk kvenna á ÓL og verður þeirri ákvörðun ekki breytt úr þessu. Samkvæmt reglum IOC verða tvö heimsmeistaramót að fara fram í greininni áður en hún kemst inn á ÓL, en fyrsta HM í skíðastökki kvenna fer fram árið 2009 í Liberec í Tékklandi. Að auki eru nýjum greinum ekki bætt inn á keppnisdagskrá ÓL ef það er skemmri tími en fjögur ár þar til að næstu leikar fara fram.

Hin 16 ára gamla Willis blæs á rök IOC og segir að margar greinar hafi farið inn á keppnisdagskrá ÓL án þess að hafa haldið tvö heimsmeistaramót. Og er maraþonhlaup kvenna nefnt til sögunnar en árið 1984 var fyrst keppt í þeirri grein á ÓL, en aðeins eitt heimsmeistaramót fór fram í greininni áður en keppt var fyrst í þessari grein á ÓL.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert