Alþjóða frjálsíþróttasambandið, IAAF, hefur úrskurðað, að suður-afríski hlauparinn Oscar Pistorius fái ekki að keppa á ólympíuleikunum í Peking í sumar. Pistorius missti báða fætur og notar koltrefjafæturna Cheetah frá Össuri þegar hann hleypur.
Pistorius fæddist án sperrileggja og foreldrar hans létu taka báða fætur af honum fyrir neðan hné áður en hann varð eins árs enda væri það líklegra til að hann gæti lifað eðlilegu lífi.
Í yfirlýsingu segir IAAF að gervifæturnir séu skilgreindir sem tæknileg aðstoð og því andstæðir reglum um keppni í frjálsíþróttum. Þess vegna geti Pistorius ekki tekið þátt í mótum, sem haldin eru í samræmi við reglur IAAF.