Bandaríski spretthlauparinn Tyson Gay, er þessa stundina staddur í Peking í Kína að skoða aðstæður fyrir Ólympíuleikana, sem fram fara 8.-24. ágúst á þessu ári. Gay, sem er heimsmeistari í 100 og 200 metra hlaupi segir að markmið hans fyrir ÓL séu þrenn gullverðlaun.
Hinn 25 ára gamli Gay ætlar sér sigur í 100 og 200 metra hlaupi og í 4x100 m boðhlaupi. „Ég er á hápunkti ferils míns og ég ætla ekki að sjá eftir því að hafa ekki reynt betur,“ sagði Gay sem leggur mikla áherslu á lyftingar á æfingum sínum.
„Ég fer í lyftingasalinn tvisvar á dag og ég tek eina hlaupaæfingu þess á milli. Ég hef aldrei æft eins mikið en ég tel mig þurfa á þessum æfingum að halda til þess að vera í fremstu röð,“ sagði Gay.