Richard Zednik, íshokkímaður frá Slóvakíu, var hætt kominn í nótt þegar hann skarst illa á hálsi í leik með liði sínu, Florida, gegn Buffalo í amerísku NHL-deildinni.
Olli Jokinen, fyrirliði Florida, féll í baráttu við leikmann Buffalo með þeim afleiðingum að fótur hans sveiflaðist uppí loftið og hitti samherja hans, Zednik, með skautanum beint í hálsinn.
Blóðið spýttist útum allt, einn af þjálfurum Florida náði að stöðva rennslið og brunað var með Zednik á sjúkrahús þar sem hann gekkst strax undir tveggja tíma skurðaðgerð. Í morgun var tilkynnt að líðan hans væri eftir atvikum og stöðug.
Gert var 15 mínútna hlé á leiknum, enda svellið alblóðugt, og varaforseti NHL-deildarinnar ræddi við dómara og forráðamenn um hvort rétt væri að flauta hann af. Leikmenn og áhorfendur voru mjög slegnir yfir atvikinu. Leikurinn var þó spilaður til enda en leikmenn voru aðeins á hálfum hraða. Buffalo vann, 5:3.
Zednik er 32 ára gamall og leikur sitt 12. tímabil í NHL-deildinni en hann á 45 landsleiki að baki fyrir Slóvakíu og er einn lykilmanna Flórídaliðsins.